Fótbolti

Helgi Guðjónss.: Strákarnir vita það að ég kem oftast með fasta bolta fyrir á þá

Árni Jóhannsson skrifar
Helgi Guðjónsson lagði upp tvö mörk í kvöld og finnst hann finna sig vel á kantinum.
Helgi Guðjónsson lagði upp tvö mörk í kvöld og finnst hann finna sig vel á kantinum. Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Helgi Guðjónsson var einn af þeim leikmönnum Víkings sem hafði hvað mest áhrif á útkomu leiks þeirra gegn Fylki í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld. Hann lagði upp tvö mörk í 3-1 sigri og var ánægður með dagsverkið.

„Það er bara hrikalega sætt að ná að klára þetta“, sagði Helgi þegar hann var spurður að því hvernig tilfinningin væri skömmu eftir leik en Víkingur virðist ekki kunna að tapa í bikarnum.

„Við byrjuðum ekkert spes, það var smá bras í byrjun en síðan var bara gott að klára þetta og vera komnir í fjögurra liða úrslit.“

Helgi var spurður hvað hann væri sáttastur með eftir leikinn.

„Bara að ná að komast í 2-0 þó við værum ekkert spes í fyrri hálfleik. Þeir voru lágt niðri og það tók smá tíma að brjóta þá niður. Að ná að fara inn í hálfleik í 2-0 var fjári sterkt fyrir seinni hálfleikinn.“

Helgi er kannski þekktari fyrir að pota boltanum í netið en í kvöld var það hann sem var í gjafastuði og lagði upp mörk tvö og þrjú. Hann var spurður að því hvernig hann var að finna sig í kvöld.

„Þessi staða á kantinum hentar mér mjög vel vegna fyrirgjafanna. Strákarnir vita það að ég kem oftast með fasta bolta fyrir á þá þannig að það er þeirra að mæta inn í eins og það er mitt að hitta á þá.“

Víkingur hafði mjög góð tök á leiknum þegar þeir voru komnir yfir en er það þá ekki erfitt að halda einbeitingu í allar 90 mínúturnar þegar andstæðingurinn virðist ekki geta ógnað liðinu að ráði.

„Já, en það er mikilvægt að halda haus og ekki gefa þeim von eins og kom kannski þarna í lokin. Þess vegna var svo mikilvægt að ná þriðja markinu í seinni hálfleik. Það rotaði leikinn fannst mér og kom í veg fyrir að þessi leikur færi í eitthvað kaos í lokin.“

Það er skammt stórra högga á milli en strax eftir helgi er leikur við Val hjá Víkingum. Hvernig fannst Helga frammistaðan í kvöld ríma við það sem Víkingur sér fyrir sér í þeim leik.

„Bara fínt. Menn eru að koma sprækir eftir smá frí og við þurfum bara að vera klárir í stórleikinn á þriðjudaginn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×