Körfubolti

„Ekki tími ársins til að fara inn í ein­hverja skel“

Árni Gísli Magnússon skrifar
Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, vildi ekki gefa upp hvort Esther Fokke og Natalia Lalic myndu ná næsta leik. 
Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, vildi ekki gefa upp hvort Esther Fokke og Natalia Lalic myndu ná næsta leik.  Vísir/Hulda Margrét

„Mér fannst við vera í hörku séns á vinna þennan leik þrátt fyrir þunnskipaðan hóp og án stórra pósta en fínasta frammistaða, bara leiðinlegt að þetta sveiflast til þeirra þarna í restina“, sagði Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, eftir tap gegn Val í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Bónus deildar kvenna en úrslitin réðust á lokamínútu leiksins.

Þór skoraði aðeins tvö stig gegn 16 stigum Vals á fyrstu sex mínútum þriðja leikhluta og byrjaði einnig fjórða leikhluta illa. Hvers vegna?

„Við virðumst alveg glíma ágætlega við mótlæti eins og þegar það vantar leikmenn og við erum fáar á æfingu og ekkert alltaf endalaust gaman hjá okkur sko, en mótlætið í leik; ef það kemur þristur og tapaður bolti öðru megin þá einhvern veginn förum við inn í einhverja skel og þetta er bara ekki tími ársins til þess að vera að spila þannig.“

Orkan virtist vera að fjara út hjá Þórsurum í fjórða leikhluta sem virtist þó ekki vera raunin miðað við áhlaupið sem liði náði undir lok leiks og breytti stöðunni úr 72-83 í 86-87 á örskammri stund.

„Það fer síðan bara öll orkan í endurkomuna á mjög fáum leikmönnum og þetta bara kostar alltof mikla orku og fáum bara ekkert svona skapandi í sókninni þarna alveg í blárestina, bara allir sprungnir.“

„Við endurheimtum einhverja leikmenn fyrir næsta leik og ég held að það sé enginn búinn að gefa þessa seríu sko, við mætum bara á laugardaginn í Valsheimilið og snúum taflinu við og vinnum þá bara þar.“

Daníel vildi þó ekkert gefa upp hvort Esther Fokke og Natalia Lalic myndu ná næsta leik.

„Bara skoðið leikskýrsluna kortér fyrir leik, sjáið aðra hvora þeirra eða báðar eða hvað sem er“, sagði Daníel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×