Fótbolti

Fékk fjóra bakka af eggjum fyrir að vera maður leiksins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jan de Boer með eggjabakkana.
Jan de Boer með eggjabakkana. bryne

Jan de Boer, markvörður Bryne, fékk ansi sérstök verðlaun fyrir að vera valinn maður leiksins gegn Bodø/Glimt í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

Nýliðar Bryne mættu meisturum Bodø/Glimt í 1. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í gær. Hollendingurinn De Boer stóð í marki Bryne og eins og við mátti búast hafði hann í nógu að snúast.

De Boer varði vel í leiknum en þurfti að sækja boltann einu sinni í netið, eftir að Kasper Høgh, fyrrverandi leikmaður Vals, skoraði á 35. mínútu.

De Boer var valinn maður leiksins fyrir frammistöðu sína. Í verðlaun fékk hann fjóra bakka af eggjum frá framleiðandanum Steinsland & Co.

Hinn 24 ára De Boer gekk í raðir Bryne frá VVV-Venlo í heimalandinu í síðasta mánuði. Hann lék tíu leiki með VVV-Venlo í hollensku B-deildinni í vetur.

Leikurinn í gær var fyrsti leikur Bryne í norsku úrvalsdeildinni síðan 2003. Liðið hefur leikið í B-deildinni undanfarin ár en var um tíma í C-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×