Fótbolti

Viðar Örn skoraði bæði í sigri | Arnór Ingvi skoraði þegar Norr­köping henti frá sér unnum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi var á skotskónum í kvöld.
Arnór Ingvi var á skotskónum í kvöld. Twitter@ifknorrkoping

Íslendinglið Atromitos í Grikklandi vann 2-1 sigur á Giannina í úrvalsdeildinni þar í landi þökk sé tveimur mörkum frá Viðari Erni Kjartanssyni. Arnór Ingvi Traustason skoraði annað mark Norrköping í því sem virtist ætla að vera öruggur sigur á Mjallby, lokatölur hins vegar 2-2 þar á bæ.

Viðar Örn og Samúel Kári Friðjónsson voru í byrjunarliði Atromitos sem tók á móti Giannina í kvöld. Eftir markalausan fyrri hálfleik komust gestirnir yfir á 63. mínútu en skömmu þar áður hafði Samúel Kári verið tekinn af velli.

Viðar Örn jafnaði metin á 75. mínútu og tryggði svo sigurinn með marki fjórum mínútum fyrir leikslok. Nældi Selfyssingurinn sér í gult spjald í fagnaðarlátunum. Hann var svo tekinn af velli í uppbótartíma.

Lokatölur 2-1 Íslendingaliðinu í vil en Atromitos er nú með 11 stig í 6. sæti að loknum sjö umferðum. Á sama tíma er Hörður Björgvin Magnússon og liðsfélagar hans í Panathinaikos á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eða 21 talsins.

Arnór Ingvi var í byrjunarliði Norrköping líkt og Ari Freyr Skúlason þegar Mjallby kom í heimsókn í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Þá var Andri Lucas Guðjohnsen á varamannabekk liðsins. Arnór Sigurðsson var hins vegar hvergi sjáanlegur í kvöld.

Christoffer Nyman kom heimaliðinu yfir eftir stundarfjórðung og var það eina mark fyrri hálfleiks. Arnór Ingvi skoraði svo eftir rúma klukkustund með skoti úr aukaspyrnu sem hafði viðkomu í varnarveggnum og flaug þaðan í netið. Óverjandi fyrir markvörð gestanna. 

Andri Lucas kom svo inn af bekknum á 65. mínútu og nældi sér í gult tíu mínútum síðar. Upp úr aukaspyrnunni tókst gestunum að minnka muninn, staðan orðin 2-1 og stundarfjórðungur til leiksloka.

Þegar fjórar mínútur voru til loka venjulegs leiktíma fékk Amir Al Ammari beint rautt spjald í liði Mjallby og gestirnir því marki undir og manni færri það sem eftir lifði leiks.

Þér létu það ekki á sig fá og tókst að jafna metin þegar venjulegum leiktíma lauk. Hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum og lauk leiknum því með 2-2 jafntefli. Íslendinglið Norrköping er nú með 29 stig að loknum 25 leikjum.

Í öðrum leikjum þá spilaði Aron Sigurðarson 76 mínútur og nældi sér í gult spjald þegar AC Horsens gerði markalaust jafntefli við Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni. Horsens er í 8. sæti með 15 stig að loknum 12 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×