Fótbolti

Sjáðu markið: Þrumu­fleygur Stanway leyfir Eng­landi að dreyma

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Georgia Stanway lætur vaða og tryggði Englandi með því sæti í undanúrslitum EM.
Georgia Stanway lætur vaða og tryggði Englandi með því sæti í undanúrslitum EM. EPA-EFE/Vince Mignott

Georgia Stanway reyndist hetja Englands er liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts kvenna í fótbolta með 2-1 sigri á Spáni í framlengdum leik. Mark Stanway var einkar glæsilegt. 

Eftir hnífjafnan fyrri hálfleik þar sem ekkert skildi liðin að þá komst Spánn yfir snemma í síðari hálfleik þökk sé marki Esther Gonzalez Rodriguez. Undirbúningur Athenea del Castillo var hreint út sagt frábær og afgreiðslan engu síðri. Var þetta fyrsta markið sem England fær á sig á mótinu.

Ekki löngu síðar virtist sem Spánn væri að tvöfalda forystuna þegar fyrirgjöf frá hægri virtist vera að fljúga í hornið fjær en Mary Earps bjargaði meistaralega og hélt enska liðinu inn í leiknum.

Það stefndi í 1-0 sigur gestanna þegar Manchester-tvíeykið Ella Toone og Alessia Russo, sem báðar höfðu komið inn af bekknum, létu til sín taka. Russo vann boltann af harðfylgi inn í vítateig Spánverja. Hún skallaði boltann á Toone sem gat ekki annað en skorað af stuttu færi og allt ætlaði um koll að keyra. 

Staðan var enn 1-1 er flautað var til loka venjulegs leiktíma. Þar reyndist enska liðið sterkara en þegar sex mínútur voru liðnar af framlengingunni steig Stanway upp. Hún rak boltann frá miðju og upp að vítateig Spánar þar sem hún lét vaða og boltinn söng í netinu. 

Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur leiksins. England er komið í undanúrslit og til alls líklegt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×