Fótbolti

Einn sigur á heilu ári fyrir skyldu­sigurinn í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenskir landsliðsmenn fagna sigrinum gegn Liechtenstein - eina sigrinum á síðustu 12 mánuðum.
Íslenskir landsliðsmenn fagna sigrinum gegn Liechtenstein - eina sigrinum á síðustu 12 mánuðum. vísir/vilhelm

Á síðustu 365 dögum hefur íslenska karlalandsliðið í fótbolta aðeins unnið einn sigur en það var á heimavelli gegn Liechtenstein, 4-0, í október í fyrra. Í kvöld gefst kærkomið tækifæri á öðrum sigri, gegn San Marínó sem er neðst á heimslista FIFA.

Frá því að Arnar Þór Viðarsson tók við íslenska landsliðinu í ársbyrjun 2021 hefur liðið unnið þrjá af nítján leikjum sínum. Tveir sigranna komu gegn Liechtenstein og einn gegn Færeyjum í leik sem fór fram fyrir rétt rúmu ári.

Þó að flestir virðist sammála um að batamerki hafi verið á leik íslenska liðsins í leikjunum við Ísrael og Albaníu í Þjóðadeildinni nú í júní enduðu þeir báðir með jafntefli. 

Þar með hefur Ísland aðeins unnið einn af síðustu fjórtán leikjum sínum, og ekki fagnað sigri í neinum af síðustu átta leikjum.

Arnar tók við landsliðinu eftir að það hafði tapað síðustu fimm leikjum sínum undir stjórn Eriks Hamrén, gegn Belgum (2 sinnum), Dönum (2 sinnum) og Ungverjum.

Undir stjórn Arnars hefur Íslands nú tapað átta leikjum, gert átta jafntefli og unnið þrjá leiki en fastlega má gera ráð fyrir því að fjórði sigurinn komi í San Marínó í kvöld.

Ísland mætir svo Ísrael öðru sinni á Laugardalsvelli á mánudagskvöld í síðasta leik sínum í þessari törn og þarf helst á sigri að halda í baráttunni um efsta sæti síns riðils í Þjóðadeildinni. Það sæti gefur sæti í 2. styrkleikaflokki fyrir dráttinn í undankeppni EM sem og öruggt sæti í EM-umspili ef á þarf að halda.

Hér að neðan má sjá úrslitin úr leikjum Íslands undir stjórn Arnars.

Leikir Íslands undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar. Sigurleikir eru grænmerktir, jafntefli gul og töpin rauð.Skjáskot/Soccerway.com



Fleiri fréttir

Sjá meira


×