Fótbolti

Van Dijk sendir blaða­manni tóninn: „Skammastu þín“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Virgil van Dijk á æfingu á AXA æfingasvæði Liverpool.
Virgil van Dijk á æfingu á AXA æfingasvæði Liverpool. Getty/Andrew Powell

Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool og hollenska landsliðsins, er allt annað en sáttur með vinnubrögð enska miðilsins The Mirror og þá sér í lagi blaðamannsins Simon Mullock.

Louis van Gaal hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá hollenska landsliðinu en Holland er án þjálfara eftir að Frank de Boer hætti eftir dapurt Evrópmót í sumar.

Í frétt Mirror kom það fram að lykilmenn hollenska hópsins væru allt annað en sáttir við mögulega ráðningu á Van Gaal og að Virgil van Dijk færi fremstur í flokki til að reyna koma í veg fyrir ráðningu á Van Gaal.

Van Dijk segir þetta algjört rugl og sendir Mullock tóninn á Twitter-síðu sinni.

„Þessi frétt er algjörlega röng. Það hefur aldrei verið mikilvægara fyrir blaðamenn að segja sannleikann og ekki bara búa eitthvað til. Skammastu þín Simon Mullock,“ skrifaði Van Dijk.

Van Dijk lék ekki á Evrópumótinu í sumar vegna meiðsla sem hann varð fyrir á síðustu leiktíð og hélt honum frá keppni út leiktíðina.

Hann hefur hafið æfingar að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×