Fótbolti

Maradona fluttur á spítala

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Diego Maradona fagnaði 60 ára afmæli sínu á föstudaginn.
Diego Maradona fagnaði 60 ára afmæli sínu á föstudaginn. getty/Marcos Brindicci

Argentínska fótboltasnillingurinn Diego Maradona var fluttur á spítala nálægt Buenos Aires vegna heilsufarsvandamála. Þau tengjast þó ekki kórónuveirunni.

Samkvæmt lækni Maradonas var hann fluttur á spítala til að gangast undir skoðanir eftir að hafa verið slappur í nokkra daga. Að sögn læknisins verður Maradona að minnsta kosti þrjá daga á spítalanum.

Maradona er þjálfari Club de Gimnasia y Esgrima La Plata í Argentínu. Hann sást síðast á almannafæri fyrir leik liðsins gegn Patronato á föstudaginn, sama dag og hann fagnaði 60 ára afmæli sínu.

Maradona var heiðraður fyrir leikinn en yfirgaf völlinn áður en hann hófst. Að sögn vitna leit hann út fyrir að vera slappur og veiklulegur.

Maradona hefur lengi glímt við heilsufarsvandamál enda verður seint sagt að hann hafi lifað heilbrigðum lífsstíl í gegnum tíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×