Fótbolti

Spilar ekki gegn Arsenal eftir há­vaða­rif­rildi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dembélé verður eftir í París á meðan liðsfélagar hans halda til Lundúna.
Dembélé verður eftir í París á meðan liðsfélagar hans halda til Lundúna. Franco Arland/Getty Images

Ousmane Dembélé, leikmaður Paris Saint-Germain, verður ekki með í för þegar liðið mætir Arsenal í Meistaradeild Evrópu í Lundúnum annað kvöld. Um er að kenna ósætti milli hans og Luis Enrique, þjálfara franska liðsins.

Liðin mætast á Emirates-vellinum í Lundúnum annað kvöld. Dembélé verður eftir í París en hann er af mörgum talinn hafa verið besti leikmaður PSG á leiktíðinni.

Franski miðilinn L'Equipé segir Enrique og Dembélé hafa rifist heiftarlega eftir leik PSG á föstudagskvöld. Dembélé lagði upp annað tveggja marka Bradleys Barcola í 3-1 sigri PSG.

Ekki fylgir sögunni um hvað Enrique og Dembélé tókust á en ljóst er að spænski þjálfarinn er ósáttur við frönsku stjörnuna og hyggst ekki nýta krafta hans í stórleik morgundagsins.

PSG er með þrjú stig eftir fyrstu umferð í nýrri deildarkeppni Meistaradeildarinnar eftir 1-0 sigur á Girona. Arsenal er með eitt stig en liðið gerði markalaust jafntefli við Atalanta í Bergamó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×