Fótbolti

Neita að halda lands­leik gegn Ísrael á þjóðarleikvanginum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rauða djöflarnir leika sína heimaleiki alla jafnan á King Baudouin leikvanginum í Brussel.
Rauða djöflarnir leika sína heimaleiki alla jafnan á King Baudouin leikvanginum í Brussel. Joris Verwijst/BSR Agency/Getty Images

Borgarstjórn Brussel, höfuðborgar Belgíu, hefur af öryggisástæðum bannað belgíska knattspyrnusambandinu að halda landsleik gegn Ísrael á King Baudouin þjóðarleikvanginum.

Mótmæli hafa verið tíð í Brussel síðan átök brutust út fyrir botni Miðjarðarhafs. Landsleikur Belgíu gegn Svíþjóð í október síðastliðnum var stöðvaður í hálfleik vegna stunguárásar á sænska aðdáendur.

Leikurinn gegn Ísrael er settur þann 6. september næstkomandi sem hluti af Þjóðadeildinni. Miðasala var stöðvuð fyrir um mánuði síðan og enn er ekki hægt að kaupa miða á leikinn.

Óvíst er hvar hann mun fara fram en mögulega þarf það að vera utan landamæra Belgíu, ljóst er í það minnsta að þjóðarleikvangurinn í Brussel verður ekki notaður.

„Það er ljóst að ef leikurinn færi fram í höfuðborginni myndi það skapa mikla og óviðráðanlega öryggisógn við áhorfendur, leikmenn, íbúa og lögregluþjóna,“ sagði Benoit Hellings borgarstjóri Brussel. Hann segir ákvörðunina tekna í samráði við lögreglu, ríkisstjórn og knattspyrnusamband Belgíu.

Í febrúar síðastliðnum var ákvörðun tekin af borgarstjórn Gent, sem er 55 kílómetra frá Brussel, að KAA Gent myndi leika án áhorfenda í heimaleik sínum gegn Maccabi Haifa í Sambandsdeildinni. Borgarstjórn Brussel bauð belgíska knattspyrnusambandinu ekki slíkt hið sama. 

„Við vissum að leikurinn við Ísrael yrði líklega spilaður án áhorfenda, og við gátum sætt okkur við það. Öryggið er öllu mikilvægast en við hörmum ákvörðun borgarstjórnar, sem hefur haldið fjölda viðburða, að leyfa okkur ekki að spila á okkar heimavelli,“ sagði í yfirlýsingu belgíska knattspyrnusambandsins.

UEFA hefur ekki tjáð sig um málið enn sem komið er. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×