Fótbolti

Blésu til veislu eftir brostna drauma í Mílanó

Sindri Sverrisson skrifar
Joshua Kimmich skoraði fjórða mark Bayern í dag.
Joshua Kimmich skoraði fjórða mark Bayern í dag. Getty/Harry Langer

Þýski meistaratitillinn blasir við Bayern München eftir 4-0 stórsigur liðsins gegn Heidenheim í dag.

Bæjarar féllu í vikunni úr leik í Meistaradeild Evrópu, eftir 2-2 jafntefli gegn Inter í Mílanóborg, en hristu þau vonbrigði af sér og unnu af miklu öryggi í dag.

Það styttist því í afar langþráðan meistaratitil fyrir ensku markamaskínuna Harry Kane sem skoraði einmitt fyrsta markið í dag, strax á 12. mínútu. Kane hefur því skorað 24 mörk í deildinni í vetur og er langmarkahæstur.

Konrad Laimer og Kingsley Coman komu Bayern í 3-0 fyrir hálfleik og Joshua Kimmich bætti við fjórða markinu fljótlega í seinni hálfleik.

Bayern er nú me 72 stig á toppnum, níu stigum á undan Leverkusen sem að reyndar á leik til góða á morgun. Bayern á sem sagt fjóra deildarleiki eftir en Leverkusen fimm og þarf því afar mikið að ganga á í síðustu umferðunum til að Bayern verði ekki meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×