Fótbolti

„Síðasti dans“ Messi og Ronaldo aftur á dag­skrá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi mætast mögulega í síðasta sinn í febrúar.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi mætast mögulega í síðasta sinn í febrúar. Getty/Harold Cunningham

Inter Miami hefur nú staðfest það að liðið muni eftir allt saman taka þátt í Riyadh bikarnum í Sádí Arabíu í febrúar næstkomandi.

Það vakti talsverða athygli í síðasta mánuði þegar Sádarnir gáfu það út að lið Lionel Messi og Cristiano Ronaldo myndu mætast í síðasta sinn í þessu æfingamóti. Þá komu forráðamenn bandaríska liðsins fram og sögðu að þetta væri ekki rétt því að Miami liðið væri ekki búið að samþykkja slíkan leik.

Nú er aftur á móti annað hljóð í Inter Miami sem staðfesti að liðið muni mæta bæði liðum Al-Hilal (29. janúar) og Al Nassr (1. febrúar).

Liðin eru í tveimur efstu sætum sádi-arabísku deildarinnar og Ronaldo, leikmaður Al Nassr, er markahæsti leikmaður deildarinnar.

Þegar leikurinn var kynntur fyrst 21. nóvember þá einhliða af Sádunum þá var talað um „síðasta dans“ Messi og Ronaldo með tilvísun í heimildarþáttaröðina um lokatímabil Michael Jordan með Chicago Bulls.

Messi og Ronaldo hafa mæst oft á sínum ferli og langoftast þegar þeir voru leikmenn Barcelona og Real Madrid. Þeir mættust líka í Riyadh bikarnum í Sádí Arabíu í fyrra en þá var Messi leikmaður franska félagsins Paris Saint Germain.

Alls eru innbyrðis leikir þessa bestu leikmanna sinnar kynslóðar orðnir 35 talsins með félagsliðum og landsliðum. Messi hefur unnið sextán leiki en Ronaldo tíu. Í leikjunum er Messi með 21 mark og 12 stoðsendingar en Ronaldo er með 20 mörk og 1 stoðsendingu.

Sádarnir hafa tælt til sína margra frábæra leikmenn með feitum samningum en þeim tókst hins vegar ekki að fá Messi til að koma þrátt fyrir gylliboð. Hann samdi frekar við bandaríska félagið. Það næstbesta í stöðunni er að fá nýja lið Messi til að koma í heimsókn og það hefur nú tekist.

Inter Miami fer ekki aðeins til Sádí Arabíu í undirbúningi félagsins fyrir tímabilið því liðið mun einnig spila í Hong Kong og á móti landsliði El Salvador.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×