Fótbolti

Ronaldo bað um að dómara yrði skipt út af

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dómari, skipting.
Dómari, skipting.

Cristiano Ronaldo var langt frá því að vera sáttur við dómara leiksins Al-Nassr og Al-Ettifaq og bað um að honum yrði skipt af velli.

Al-Nassr vann leikinn, 1-0, í sextán liða úrslitum sádiarabíska konungsbikarsins en Ronaldo var samt hinn ósáttasti á meðan honum stóð. Hann fékk til að mynda gult spjald í fyrri hálfleik fyrir mótmæli.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Brasilíumaðurinn Talisca fyrir Al-Nassr. Markið var hins vegar dæmt af eftir skoðun á myndbandi þar sem Ronaldo var rangstæður.

Portúgalinn hafði lítinn húmor fyrir þessari ákvörðun, gaf merki um skiptingu og benti svo á dómarann, hinn síleska Piero Maza. 

Hann fékk ósk sína þó ekki uppfyllta og ekki kættist hann augnabliki síðar þegar Talisca var rekinn af velli fyrir olnbogaskot.

Jafnt varð í liðum á 89. mínútu þegar Ali Abdullah Hazzazi, leikmaður Al-Ettifaq, fékk rautt spjald. Bæði lið voru því með tíu leikmenn inn á í framlengingunni þar sem úrslit leiksins réðust.

Sadio Mané reyndist hetja Al-Nassr en hann skoraði eina mark leiksins á 107. mínútu og tryggði liðinu sæti í átta liða úrslitum konungsbikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×