Fótbolti

Sadio Mané kaupir fót­bolta­fé­lag og borgar­stjórinn er sáttur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane þarf að gera mikið fyrir nýja félagið sitt ef að það ætlar að komast upp úr frönsku D-deildinni.
Sadio Mane þarf að gera mikið fyrir nýja félagið sitt ef að það ætlar að komast upp úr frönsku D-deildinni. EPA-EFE/ANNA SZILAGYI

Senegalski landsliðsframherjinn Sadio Mané gerir meira en um að dreyma um það að eignast fótboltafélag því hann er að láta drauminn rætast meðan hann er enn að spila.

Hinn 31 árs gamli Mané spilar nú með Al Nassr í Sádí Arabíu en lék áður með Bayern München og Liverpool.

Franskir fjölmiðlar segja frá því að Mané sé að ganga frá kaupum á franska fjórðu deildarfélaginu Bourges Foot 18.

Mané hafði hjálpað félaginu síðasta sumar og látið það fá pening til að geta fengið til sín leikmenn en nú er hann samkvæmt þessum upplýsingum að verða formlegur og staðfestur eigandi í félaginu.

Borgarstjórinn Yann Galut hefur lýst yfir ánægju sinni með fréttirnar. Bourges er 64 þúsund manna borg en stolt borgarinnar hingað til hefur verið kvennakörfuboltaliðið CJM Bourges Basket sem er margfaldur franskur meistari og hefur unnið Euroleague þrisvar sinnum.

Cheikh Sylla, forseti Bourges Foot 18, spilaði stórt hlutverk í því að fá Mané inn og hann mun halda sæti sínu sem forseti félagsins.

Bourges Foot 18 er staðsett 250 kílómetra suður af París eða í miðju landinu. Félagið hefur aldrei komist ofar en í frönsku b-deildina. Liðið situr eins og er næst neðst í B-riðli Championnat National deildarinnar sem D-deildin í Frakklandi.

Mané fór til Arabíu eftir vonbrigðartímabil hjá Bayern en hann átti mögnuð ár hjá Liverpool þar sem hann vann meðal annars sex titla þar á meðal Meistaradeildina 2019 og ensku úrvalsdeildina 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×