Fótbolti

Sigurður Höskuldsson tekur við Þór

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigurður Höskuldsson er tekinn við Þór Akureyri.
Sigurður Höskuldsson er tekinn við Þór Akureyri. Vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnuþjálfarinn Sigurður Höskuldsson hefur verið ráðinn þjálfari Lengjudeildarliðs Þórs frá Akureyri. Félagið greinir frá tíðindunum á heimasíðu sinni.

Hann tekur við stjórnartaumunum af Þor­láki Árna­syni, sem lét af störf­um eft­ir nýliðna leiktíð. Sig­urður var síðast aðstoðarþjálf­ari Vals, en þar áður var hann þjálfari Leiknis. Undir stjórn Sigurðar komst Leiknir upp í efstu deild árið 2021, en féll aftur á síðasta ári.

„Siggi var efstur á lista stjórnar frá upphafi og sá eini sem við fórum í viðræður við. Erum við því virkilega ánægðir með ráðninguna, hlökkum til samstarfsins og bjóðum hann velkominn í Þorpið,“ segir Sveinn Elías, formaður knattspyrnudeildar Þórs á heimasíðu félagsins.

Þór hafnaði í sjöunda sæti Lengjudeildarinnar á síðasta tímabili þar sem liðið fékk 27 stig í 22 leikjum. Sigurður hefur skrifað undir þriggja ára samning við félagið og fær því góðan tíma til að gera atlögu að sæti í deild þeirra bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×