Fótbolti

Hetja enska landsliðsins í þriðja sinn á einu ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chloe Kelly fagnar sigurmarki sínu í vítakeppninni á móti Nígeríu.
Chloe Kelly fagnar sigurmarki sínu í vítakeppninni á móti Nígeríu. Getty/James Whitehead

Enska kvennalandsliðið í knattspyrnu hefur verið að gera frábæra hluti undanfarin ár með því að vinna tvo titla og nú með því að komast í átta liða úrslit á HM. Einn leikmaður liðsins virðist alltaf stíga fram þegar mest á reynir.

Chloe Kelly tryggði enska landsliðinu sigur í vítakeppninni á móti Nígeríu í sextán liða úrslitum HM þegar hún skoraði af miklu öryggi úr lokaspyrnunni.

Þetta var hins vegar langt frá því að vera i fyrsta skiptið sem þessi 25 ára Lundúnastelpa er hetja þjóðar sinnar.

Kelly varð fyrir áfalli árið 2021 þegar hún sleit krossband í hné en snéri aftur um vorið 2022 og náði að vinna sér sæti í EM-hóp enska landsliðsins.

Hún var hins vegar á bekknum hjá liðinu á EM en kom oft sterk inn. Það gerði hún með eftirminnilegum hætti í úrslitaleik Evrópumótsins á Wembley í fyrra.

Kelly kom þá inn á sem varamaður og skoraði sigurmark enska landsliðsins á 110. mínútu. Markið tryggði enska liðinu Evrópumeistaratitilinn, fyrsta stóra titil enska kvennalandsliðsins og fyrsta stóra titil ensks fótboltalandsliðs í 56 ár.

í apríl á þessu ári þá tryggði Kelly síðan enska landsliðinu sigur í Finalissima með því að skora úr lokavítinu í vítakeppninni. Finalissima er ný keppni hjá þar sem Evrópumeistararnir mæta Suðurameríkumeisturunum.

Kelly tók einnig síðasta vítið í vítakeppninni í gærmorgun og skaut þá enska landsliðinu áfram í átta liða úrslitin.

Á aðeins 372 dögum hefur hún þar með þrisvar sinnum verið hetja þjóðar sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×