Fótbolti

Lét gömlu liðsfélagana heyra það: „Stöngin var maður leiksins“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Megan Rapinoe, Alex Morgan og allar stjörnurnar í bandaríska landsliðinu í fótbolta voru hársbreidd frá því að falla út í riðlakeppni HM.
Megan Rapinoe, Alex Morgan og allar stjörnurnar í bandaríska landsliðinu í fótbolta voru hársbreidd frá því að falla út í riðlakeppni HM. getty/Carmen Mandato

Carli Lloyd, ein besta fótboltakona allra tíma, var ekki hrifin af frammistöðu bandaríska landsliðsins gegn Portúgal og sagði það stálheppið að vera ekki úr leik á HM.

Bandaríkin mættu Portúgal í lokaumferð riðlakeppninnar á HM í morgun. Bandaríska liðinu dugði jafntefli til að komast áfram í sextán liða úrslit.

Stjörnum prýtt lið Bandaríkjanna var sterkari aðilinn í leiknum en var samt hársbreidd frá því að tapa honum og falla úr leik. Í uppbótartíma slapp varamaðurinn Ana Capeta í gegnum vörn bandaríska liðsins en skaut í stöng. Hefði hún skorað hefði hún sent heimsmeistarana heim með skottið á milli lappanna.

Lloyd, sem varð tvisvar sinnum heimsmeistari og einu sinni Ólympíumeistari með bandaríska liðinu, var ekki sátt með spilamennsku þess í leiknum mikilvæga í morgun.

„Ég hef aldrei upplifað neitt svona lagað. Að vera dansandi, brosandi. Ég meina, stöngin var maður leiksins,“ sagði Lloyd. „Þið eruð heppnar að vera ekki á heimleið.“

Lloyd lék 316 landsleiki á árunum 2005-21 og skoraði 134 mörk. Hún gerði meðal annars þrennu í úrslitaleik HM 2015 þar sem Bandaríkin unnu Japan, 5-2. Lloyd er næstleikjahæst í sögu bandaríska landsliðsins og þriðja markahæst.

Allar líkur eru á því að Bandaríkin mæti Svíþjóð í sextán liða úrslitum á HM á sunnudaginn. Nær öruggt er að Svíar vinni G-riðil en liðið er með sex stig fyrir lokaumferðina á morgun og tíu mörkum betri markatölu en Ítalía sem er með þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×