Fótbolti

Stálrósirnar unnu þrátt fyrir að vera færri í klukkutíma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wang Shuang var hetja Kína gegn Haití.
Wang Shuang var hetja Kína gegn Haití. getty/Maddie Meyer

Kína vann Haití, 1-0, í síðasta leik dagsins á heimsmeistaramótinu í fótbolta kvenna.

Kínverjar urðu fyrir miklu áfalli eftir tæpan hálftíma þegar Zhang Rui var rekin af velli fyrir að fara með takkana í hnéð á Sherly Jeudy. Dómarinn lyfti fyrst gula spjaldinu en breytti svo dómnum eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi.

Þremur mínútum fyrir hálfleik skoraði Nerilia Mondesir fyrir Haití en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Á 53. mínútu fékk Melchie Dumornay besta færi Haití í leiknum en Zhu Yu varði skot hennar.

Eina mark leiksins kom á 74. mínútu. Wang Shuang skoraði þá úr vítaspyrnu sem Zhang Linyan sótti. Skömmu síðar vildi Kína fá annað víti en ekkert var dæmt.

Í uppbótartíma dæmdi Marta Huerta de Aza víti á Kína en dómnum var seinna breytt og Kínverjar gátu andað léttar.

Eftir sigurinn er Kína í 2. sæti D-riðils með þrjú stig, líkt og Danmörk. Í lokaumferð riðlakeppninnar mæta Kínverjar Englendingum.

Haití er án stiga á botni riðilsins en á enn tölfræðilega möguleika á að komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×