Fótbolti

Fyrsti sigur Portúgals á HM

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þær portúgölsku áttu ekki í miklum vandræðum með andstæðing dagsins.
Þær portúgölsku áttu ekki í miklum vandræðum með andstæðing dagsins. Getty

Portúgal vann í morgun sinn fyrsta sigur á heimsmeistaramóti kvenna er það lagði Víetnam að velli, 2-0.

Portúgal er á mótinu í fyrsta sinn og tapaði 1-0 fyrir Hollandi í fyrstu umferð E-riðils í uppgjöri Íslandsbana haustsins en Ísland tapaði sitthvorum úrslitaleiknum fyrir liðunum tveimur sem eru á mótinu á kostnað Íslands.

Sigur dagsins á Víetnam var síst of stór en Portúgal var þar með öll völd, átti um 25 marktilraunir gegn þremur og aldrei vafi á því hvert stigin þrjú færu.

Telma Encarnacao kom Portúgal yfir strax á 7. mínútu leiksins og á 21. mínútu bætti Kika Nazareth við seinna marki liðsins í 2-0 sigri.

Portúgal er með þrjú stig í riðlinum í þriðja sæti, stigi á eftir Hollandi og Bandaríkjunum sem gerðu 1-1 jafntefli fyrr í morgun.

Stigalaust lið Víetnam situr á botninum án stiga og er fallið úr keppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×