Fótbolti

Lék á FIFA með sínum eigin regnboga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tilfinningarnar flæddu hjá Ali Riley í leikslok á fyrsta sigri nýsjálenska kvennalandsliðsins á HM í fótbolta og hér má sjá í hluta af regnboganöglunum hennar.
Tilfinningarnar flæddu hjá Ali Riley í leikslok á fyrsta sigri nýsjálenska kvennalandsliðsins á HM í fótbolta og hér má sjá í hluta af regnboganöglunum hennar. AP/Andrew Cornaga

Nýja-Sjáland vann eftirminnilegan sigur í opnunarleik HM kvenna í fótbolta á dögunum en þær nýsjálensku fá ekki aðeins hrós fyrir frammistöðuna inn á vellinum.

Alþjóða knattspyrnusambandið bannaði regnbogafyrirliðaböndin á HM kvenna alveg eins og sambandið gerði á HM í Katar í desember síðastliðnum.

Fyrirliðarnir gátu valið úr átta mismunandi fyrirliðaböndum, sem á voru skrifuð jákvæð skilaboð, en regnbogalitirnir máttu þó hvergi sjást.

Þetta var fimmta heimsmeistaramót Nýja Sjálands en liðið hafði aldrei fagnað sigri fyrr en nú.

Það og að þær voru á heimavelli gerði stundina enn stærri fyrir leikmenn liðsins sem mátti líka sjá á viðbrögðum þeirra í leikslok.

Ali Riley, 35 ára fyrirliði nýsjálenska landsliðsins, átti þannig erfitt með að stjórna tilfinningum sínum eftir leikinn. Hún hafði hins vegar stjórn á því að leika á regluverk FIFA á nýstárlegan hátt.

Þegar Ali Riley mætti í viðtölin eftir leikinn þá tók hún mikið um höfuð sitt enda enn að átta sig á þýðingu úrslita leiksins. Það gaf um leið sjónvarpsáhorfendum út um allan heim að sjá að hún var að plata forráðamenn FIFA með sínum eigin regnboga.

Riley hafði nefnilega málað neglur sína í regnbogalitunum, hver nögl með sinn eigin lit. Hún reyndi vísvitandi að sína neglurnar og það var enginn vafi um að hún var þarna að senda skilaboð.

Riley spilar með Angel City FC í Bandaríkjunum og félagið hennar var fljótt að benda á framtak leikmannsins.

„Ali Riley (og regnboganeglur hennar) eru að brjóta Internetið,“ skrifaði Angel City á samfélagsmiðla sína undir mynd af henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×