Fótbolti

Stjörnukonan tók þátt í sögulegum sigri í opnunarleik HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannah Wilkinson fagnar hér markinu sínu sem var það fyrsta sem var skorað á HM kvenna í fótbolta í ár.
Hannah Wilkinson fagnar hér markinu sínu sem var það fyrsta sem var skorað á HM kvenna í fótbolta í ár. AP/Andrew Cornaga

Nýja Sjáland byrjaði heimsmeistaramótið á heimavelli frábærlega eða með því að vinna 1-0 sigur á Noregi í opnunarleik HM kvenna í fótbolta í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Þetta var fyrsti sigur Nýja-Sjálands í sögu HM kvenna.

Stjörnukonan Betsy Hassett var í byrjunarliði Nýja-Sjálands og spilaði allan leikinn á vinstri kantinum. Hassett hefur spilað 94 leiki með Stjörnunni (56 leikir) og KR (38) í efstu deild frá árinu 2017 og er með sjö leiki í Bestu deildinni með Stjörnunni í sumar.

Baráttuglaðar heimakonur gerðu norsku stelpunum mjög erfitt fyrir frá fyrstu mínútu leiksins en stórstjörnur norska liðsins, sem spila allar með bestu liðum heims, náðu sér alls ekki á strik.

Nýja-Sjáland var þannig betra liðið í fyrri hálfleiknum en staðan var engu að síður markalaus eftir hann.

Það tók aftur á móti þær nýsjálensku aðeins þrjár mínútur að komast yfir í þeim síðari.

Hannah Wilkinson skoraði þá eftir frábæra sókn og mjög góðan undirbúning frá Jacqui Hand. Hand komst fram hjá bakverði norska liðsins og sendi boltann fyrir markið þar sem Wilkinson afgreiddi hann í markið í fyrstu snertingu.

Nýja-Sjáland hafði getað bætt við marki en reynsluboltinn Ria Percival skaut í slá úr vítaspyrnu á lokamínútum leiksins.

Hin 31 árs gamla Wilkinson var þarna að skora á sínu þriðja heimsmeistaramóti en hún skoraði á móti Mexíkó á HM í Þýskalandi 2011 og á móti Kína á HM 2015. Síðasta landsliðsmarkið hennar fyrir leikinn í gær var á móti Íslandi í apríl síðastliðnum. Hún hefur nú skorað 29 mörk í 116 landsleikjum.

Þetta var sannarlega sögulegur sigur fyrir kvennalandslið Nýja Sjálands. Liðið hafði spilað fimmtán leiki á fimm heimsmeistaramótum en hafði aldrei náð að vinna leik. Þrjú jafntefli og tólf töp.

Úrslitin eru áfall fyrir norska liðið en hin liðin í riðlinum eru Sviss og Filippseyjar og það er mikið eftir enn af riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×