Fótbolti

Rodman með súperinn­komu hjá banda­rísku stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trinity Rodman fagnar öðru marka sinna í leiknum á móti Wales.
Trinity Rodman fagnar öðru marka sinna í leiknum á móti Wales. AP/Josie Lepe

Heimsmeistarar Bandaríkjanna unnu 2-0 sigur á Wales í nótt í síðasta undirbúningsleik liðsins fyrir HM kvenna í fótbolta sem hefst eftir aðeins tíu daga.

Hetja bandaríska liðsins var hin unga Trinity Rodman sem kom inn á í hálfleik og kláraði leikinn með tveimur mörkum í seinni hálfleiknum.

Rodman er dóttir NBA goðsagnarinnar Dennis Rodman, en hún er fyrir löngu búinn að skapa sér sitt eigið nafn með frábærri frammistöðu í bandarísku deildinni þar sem hún var með annars meistari á fyrsta tímabili með Washington Spirit.

Reynsluboltinn Alex Morgan var þó í byrjunarliði bandaríska liðsins í leiknum en var tekin af velli fyrir Rodman eftir bitlítinn fyrri hálfleik.

Það má segja að framtíðarframherjar bandaríska liðsins hafi búið til fyrra markið því það lagði upp hin 22 ára Sophia Smith. Trinity Rodman er einu ári yngri.

Rodman er nú komin með fjögur landsliðsmörk í fyrstu átján leikjunum. Hún var í þessum leik sú yngsta í langri sögu bandaríska landsliðsins til að skora tvennu fyrir A-landsliðið.

Bandaríska landsliðið getur unnið þriðja heimsmeistaratitil sinn í röð á þessu móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×