Fótbolti

Franskur blaðamaður mjög áhugasamur um mömmurnar í íslenska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Villa Vincent sést hér ræða við Dagný Brynjarsdóttur og þá væntanlega um móðurhlutverkið og hvernig það sé að vera mamma í atvinnumennsku í fótbolta.
Villa Vincent sést hér ræða við Dagný Brynjarsdóttur og þá væntanlega um móðurhlutverkið og hvernig það sé að vera mamma í atvinnumennsku í fótbolta. Vísir/Vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er nú með sex mömmur í sínum hóp eða 26 prósent af leikmönnum sínum.

Íslenska liðið skapar sér sérstöðu með þessu og þetta hefur vakið athygli erlendra fjölmiðlamanna.

Fram undan er leikur Íslands og Frakklands á mánudagskvöldið en þetta er lokaleikur þjóðanna í riðlinum. Frakkar eru komnir áfram en Ísland þarf helst að fá eitthvað út úr þessum leik til að geta haldið öðru sætinu í riðlinum.

Franskur blaðamaður hefur fylgt eftir íslenska liðinu síðustu daga. Hann mætti á leikinn á móti Ítalíu og var einnig mættur þegar íslensku stelpurnar hittu blaðamenn í kvöld.

Sá heitir Villa Vincent og er blaðamaður hjá hinu virta franska íþróttatímariti L'Equipe.

Vincent hefur verið að forvitnast um hvað liggur að baki því að Ísland sé með svo margar mömmur í liðinu og hann tók líka langt viðtal við Dagný Brynjarsdóttur sem er eins af þessum sex mömmum í liðinu.

Vincent ætlaði að velja úrvalslið mótsins úr hópi mæðranna í leikmannahópum liðanna og það verður athyglisvert að sjá hversu margar þeirra verða íslenskar.

Vincent vildi einnig fá upplýsingar um mömmurnar frá íslenskum blaðamönnum og það verður fróðlegt að skoða þessa grein hans í aðdraganda leiksins við Frakka á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×