Fótbolti

Segir það rétta ákvörðun að fresta leik Skotlands og Úkraínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool maðurinn Andy Robertson er fyrirliði skoska landsliðsins en Skotar komast ekki að því fyrr en í fyrsta lagi í júní hvort þeir verði með á HM í Katar eða ekki.
Liverpool maðurinn Andy Robertson er fyrirliði skoska landsliðsins en Skotar komast ekki að því fyrr en í fyrsta lagi í júní hvort þeir verði með á HM í Katar eða ekki. EPA-EFE/ROBERT PERRY

Ekkert verður af leik Skota og Úkraínumanna í umspili um sæti á HM en leikurinn átti að fara fram 24. mars næstkomandi.

Alþjóða knattspyrnusambandið samþykkti beiðni Úkraínu um að fresta leiknum vegna innrásar Rússa í landið.

Þetta þýðir um leið að úrslitaleikurinn um laust sæti við annað hvort Wales eða Austurríki fer ekki fram í mars. Það þykir líklegast að þessir leikir fari í staðinn fram í stóra landsleikjaglugganum í júní.

Heimsmeistarakeppni í Katar fer fram 21. nóvember til 18. desember á þessu ári. Það er því ekki allt of langur tími til stefnu ekki síst þar sem fótboltatímabilin í Evrópu hefjast fyrr vegna þess að þau þurfa að gera hlé á meðan HM fer fram.

Mark McGhee, fyrrum aðstoðarlandsliðsþjálfari Skota, er á því að FIFA sé að gera hið rétta í þessari erfiðu stöðu en hann ræddi þetta við breska ríkisútvarpið.

„Ég held að þetta sé rétta ákvörðunin. Við verðum að virða það sem er í gangi þarna og áhrifin sem það hefur á þeirra leikmenn,“ sagði Mark McGhee, sem er nú stjóri Dundee.

„Úkraína hefur rétt á því að keppa á jafnréttisgrundvelli og ekki síst undir núverandi kringumstæðum. Það yrði alltof mikið að ætlast til þess að þeirra landsliðsmönnum að spila leik á þessu stigi á þessum tíma. Það yrði meira segja ósanngjarnt að kalla þá saman á þessum tímapunkti,“ sagði McGhee.

„Það er enginn að tapa neinu á þessu. Skosku stuðningsmennirnir vilja augljóslega fá að vita hvað er í gangi en þetta er það rétta í stöðunni og ég held að skoska knattspyrnusambandið muni ekki gera neina athugasemd,“ sagði McGhee.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×