Fótbolti

Liverpool þriðja sigursælasta félagið í sögu Meistaradeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool-menn fagna.
Liverpool-menn fagna. vísir/getty
Liverpool vann Meistaradeild Evrópu í sjötta sinn í gær. Liverpool bar sigurorð af Tottenham, 0-2, í úrslitaleikum í Madríd.

Aðeins tvö félög hafa oftar unnið Meistaradeildina, eða Evrópukeppni meistaraliða eins og hún nefndist á árunum 1956-92, oftar en Liverpool.

Real Madrid er langsigursælast í sögu keppninnar með 13 titla. Real Madrid vann keppnina m.a. fyrstu fimm árin og varð svo Evrópumeistari þrjú ár í röð (2016-18). Real Madrid vann Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra, 3-1.

AC Milan hefur unnið keppnina næst oftast, eða sjö sinnum. Síðast varð Milan Evrópumeistari 2007, eftir sigur á Liverpool í úrslitaleik. Tveimur árum fyrr hafði Liverpool unnið Milan í frægum úrslitaleik í Istanbúl.

Liverpool varð fjórum sinnum Evrópumeistari á árunum 1977-84, svo 2005 og loks í ár. Liverpool hefur alls níu sinnum komist í úrslit Meistaradeildarinnar. Liðið tapaði í úrslitum 1985, 2007 og 2018.

Bayern München og Barcelona hafa unnið fimm Evrópumeistaratitla hvort félag og Ajax fjóra. Inter og Manchester United hafa unnið þrjá hvort.

Flestir Evrópumeistaratitlar:

Real Madrid - 13

AC Milan - 7

Liverpool - 6

Bayern München - 5

Barcelona - 5

Ajax - 4

Inter - 3

Man. Utd. - 3

Juventus - 2

Benfica - 2

Nottingham Forest - 2

Porto - 2


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra fagnar því að bikarinn sé kominn heim

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, er eldheitur stuðningsmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool sem fyrr í kvöld varð Evrópumeistari í sjötta sinn í sögu félagsins með sigri á Tottenham á Metropolitano-vellinum í Madríd.

Origi: Þetta er ólýsanlegt

Divock Origi kom af bekknum og gulltryggði sigur Liverpool á Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×