Fótbolti

Verður fyrsta konan sem dæmir í frönsku karladeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frappart dæmir á sínu þriðja stórmóti í sumar.
Frappart dæmir á sínu þriðja stórmóti í sumar. vísir/getty
Stéphaine Frappart verður fyrsta konan til að dæma leik í úrvalsdeild karla í Frakklandi um helgina. Hún dæmir þá leik Amiens og Strasbourg.

Frappart dæmir á HM kvenna í Frakklandi í sumar og í yfirlýsingu frá franska knattspyrnusambandinu kemur fram að hún hafi verið sett á leikinn um helgina til að hjálpa henni við undirbúninginn fyrir HM.

Frappart er önnur konan sem dæmir leik í fimm sterkustu karladeildum Evrópu.

Bibiana Steinhaus varð sú fyrsta þegar hún dæmdi leik Herthu Berlin og Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum.

Frappart, sem er 35 ára, varð fyrsta konan til að dæma leik í frönsku B-deildinni 2014.

Hún dæmdi á HM 2015 og EM 2017. Á síðarnefnda mótinu dæmdi hún m.a. leik Hollands og Englands í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×