Fótbolti

Diego Costa spilar ekki Englandsleikinn af persónulegum ástæðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa og Sergio Ramos.
Diego Costa og Sergio Ramos. Vísir/Getty
Diego Costa mun ekki snúa aftur til Lundúna á laugardaginn kemur eins og búist var við.

Spænska landsliðið mun þá mæta því enska í Þjóðadeildinni en þurfa að gera það án aðalframherja síns.

Diego Costa hefur dregið sig út úr spænska landsliðinu af persónulegum ástæðum. Sögusagnir á Spáni eru að það sé vegna þess að kona hans sé að eignast þeirra annað barn.





Diego Costa gerði garðinn frægan með Chelsea-liðinu en var síðan henti skyndilega út í kuldann þrátt fyrir að vera 20 marka maður á Englandsmeistaratímabili Chelsea. Diego Costa vann enska titilinn með Chelsea bæði 2015 og 2017.

Diego Costa endaði á því að spila ekki í hálft ár en fara svo í sitt gamla félag Atletico Madrid. Hann vann spænska titilinn með Atletico 2014 og Evrópudeildina með Madrid liðinu síðasta vor.

Diego Costa hefur skorað 10 mörk í 24 landsleikjum fyrir Spán en þarf af skoraði hann þrjú markanna á HM í Rússlandi í sumar.

Gamall Liverpool maður kemur inn í landsliðið í staðinn fyrir Diego Costa en það er Iago Aspas sem spilar með Celta Vigo.





Þetta eru fyrstu landsleikir Spánverja undir stjórn Luis Enrique. Hann hafði hent Iago Aspas út úr landsliðinu en þurfti nú að kalla aftur á hann.

Alls gerði Luis Enrique upphaflega sjö breytingar á HM-hópi Spánverjar en meðal þeirra sem misstu sætið sitt voru Nacho Monreal hjá Arsenal, Jordi Alba hjá Barcelona og Lucas Vázquez hjá Real Madrid.

Spánn spilar við England á Wembley á laugardaginn og fær síðan Króatíu í heimsókn þremur dögum seinna. Þetta er líklega einn allra erfiðasti riðillinn í A-deild Þjóðadeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×