Fótbolti

Hazard og Lukaku mæta á Laugardalsvöll

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lukaku og Hazard eru tvær af stæsrtu stjörnum belgíska liðsins
Lukaku og Hazard eru tvær af stæsrtu stjörnum belgíska liðsins vísir/getty
Eden Hazard, Romelu Lukaku og Marouane Fellaini eru í hópnum sem mætir Íslandi í september. Thierry Henry mun halda áfram sem aðstoðarlandsliðsþjálfari Belga.

Roberto Martinez tilkynnti í dag 23 manna hóp sinn fyrir komandi landsliðsverkefni. Belgar spila vináttuleik við Skota 7. september og mæta svo á Laugardalsvöll í leik gegn Íslendingum í Þjóðadeildinni 11. september.

Ljóst var að Kevin de Bruyne myndi ekki vera í hópnum vegna meiðsla sem hann hlaut á æfingu Manchester City fyrr í mánuðinum.

Martinez velur sama hóp og hann valdi á HM í Rússlandi fyrir utan de Bruyne og Adnan Januzaj sem eru meiddir.

Mikil umræða var um það hvort Thierry Henry væri að fara að taka við stöðu aðalþjálfara félagsliðs í sumar en hann hefur tekið að sér fullt starf hjá belgíska knattspyrnusambandinu sem aðstoðarþjálfari A-landsliðsins.

Belgar unnu til bronsverðlauna á HM í Rússlandi og koma inn í Þjóðadeildina sem líklegur sigurvegari riðilsins, en ásamt Belgíu og Íslandi er Sviss einnig í riðlinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×