Fótbolti

Hamrén fékk 16 daga til að velja fyrsta hópinn og það fyrir mótsleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eric Hamrén fær ekki langan tíma til undirbúnings.
Eric Hamrén fær ekki langan tíma til undirbúnings. vísir/getty
Eric Hamrén tilkynnir á föstudaginn sinn fyrsta landsliðshóp eftir að hann var ráðinn þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta.

Hamrén var ráðinn miðvikudaginn 8. ágúst og fékk því aðeins 16 daga til að velja sinn fyrsta hóp og það fyrir mikilvægan mótsleik í Þjóðadeildinni á móti Sviss ytra.

Oft þegar að nýir þjálfarar eru ráðnir er það eftir undankeppnir þannig að menn fá tíma og æfingaleiki til að stilla strengina eins og þegar að samlandi Hamréns, Lars Lagerbäck, var ráðinn.

Lagerbäck var kynntur til sögunnar 14. október 2011 og valdi fyrsta hópinn sinn 74 dögum síðar eða 27. desember sama ár. Það var æfingahópur leikmanna sem spiluðu á Íslandi og á Norðurlöndunum.

Lagerbäck fékk svo enn meiri til að undirbúa fyrstu leikina sem voru í lok febrúar 2012. Það voru vináttuleikir á móti Japan og Svartfjallalandi ytra. Hann spilaði ekki fyrsta mótsleik fyrr en á móti Noregi tæpu ári eftir að hann var ráðinn þjálfari.

Vegna tilkomu Þjóðadeildarinnar fékk Hamrén ekki nema þessa 16 daga til að velja sinn fyrsta hóp og það fyrir mótsleik. Hann fær svo fimm æfingar eftir að liðið kemur saman í Austurríki mánudaginn fyrir leikinn á móti Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×