Fótbolti

Emil fer í læknisskoðun í dag: „Fann kipp aftan í lærinu“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil Hallfreðsson gæti misst af næstu landsleikjum.
Emil Hallfreðsson gæti misst af næstu landsleikjum. vísir/getty
Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í fótbolta, fer í segulómskoðun síðdegis í dag þar sem kemur nákvæmlega í ljós hversu alvarleg meiðsli miðjumannsins eru.

Emil var skipt af velli á elleftu mínútu í leik Frosinone og Bologna á laugardaginn og er hætta á að hann missi af landsleikjum Íslands á móti Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni sem fram fara 8. og 11. september.

„Ég fann smá kipp aftan í lærinu. Mér finnst eins og þetta sé ekki alvarlegt eða ég er allavega að vona það. Ég vona að það hafi hjálpað til hversu snöggur ég var að hætta leik,“ segir Emil við Vísi.

Emil var einn besti leikmaður íslenska liðsins á HM 2018 í Rússlandi og munar mikið um fjarveru hans í næstu leikjum, sérstaklega í ljósi þess að fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er einnig meiddur og mun ekki spila leikina mikilvægu.

Jóhann Berg Guðmundsson meiddist einnig um helgina en enn þá er óljóst hversu alvarleg meiðsli hans eru. Þá er markahrókurinn Alfreð Finnbogason meiddur í kálfa og verður ekki með á móti Sviss og Belgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×