Fótbolti

Guðni vill ekki gefa upp við hverja KSÍ talaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik Hamrén og Guðni Bergsson á fundinum í dag.
Erik Hamrén og Guðni Bergsson á fundinum í dag. Vísir/Vilhelm
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vildi ekki gera það opinbert við hverja var talað í landsliðsþjálfaraleit sambandsins.

„Það eru svona tíu til tólf dagar síðan við Erik ræddum fyrst saman. Erik kom hingað til lands fyrir rúmri viku síðan og þá var þetta komið af stað. Við vissum þá af hverju við værum að stefna. Þetta er því rétt innan við tveggja vikna ferli frá því við heyrðum fyrst í honum,“ sagði Guðni Bergsson á blaðamannafundi í dag.

„Samkomulagið var þó ekki komið á fyrr en nýlega. Við vorum að vinna nokkuð stóran hóp. Það voru á þriðja tug nafna sem annaðhvort sóttu um eða við fengum ábendingu um. Við þrengdum síðan þann hóp niður strax,“ sagði Guðni.

„Það voru síðan einhverjir fimm sem við skoðuðum virkilega vel. Ég vil ekki tala um það hverjir það voru að svo stöddu en þetta voru aðallega nöfn frá Norður-Evrópu og Norðurlöndunum. Við vorum að horfa þangað með það fyrir augum að halda í þetta módel okkar miðað hvar liðið er og hvað við teljum að sé gott fyrir liðið,“ sagði Guðni.

„Fljótlega myndaðist áhugi að taka þetta lengra með Erik sem við og gerðum. Niðurstaðan er augljós hér í dag,“ sagði Guðni.


Tengdar fréttir

Svona var Erik Hamrén kynntur til leiks

Knattspyrnusamband Íslands hélt blaðamannafund þar sem kynntur var til leiks nýr landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins. Vísir var með beina útsendingu og textalýsingu frá fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×