Fótbolti

Grættu dómarann og hættu við blaða­manna­fund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
De Burgos Bengoetxea dæmdi meðal annars leik Real gegn Mallorca.
De Burgos Bengoetxea dæmdi meðal annars leik Real gegn Mallorca. Yasser Bakhsh/Getty Images

Það verður ekki annað sagt en dramatíkin sé mikil í kringum úrslitaleik spænsku bikarkeppni karla í knattspyrnu þar sem Real Madríd og Barcelona mætast.

Það er oftar en ekki dramatík þegar þessi lið mætast enda svo gott sem orðabókaskilgreiningin á erkifjendum. Úrslitaleikur bikarsins verður langt í frá fyrsti leikur liðanna á leiktíðinni en Real hefur hins vegar ekki enn unnið Barcelona á tímabilinu.

  • Barcelona vann 2-1 sigur þegar þau mættust í vináttuleik fyrir mót.
  • Barcelona vann 4-0 stórsigur í deildarleik liðanna í Madríd.
  • Barcelona vann 5-2 sigur þegar liðin mættust í Ofurbikarnum.

Í aðdraganda úrslitaleiksins hefur Real skorið upp herör gegn Ricardo de Burgos Bengoetxea en sá mun dæma leikinn á laugardagskvöld. Hann brást í grát á blaðamannafundi fyrir leik þegar hann útskýrði fyrir viðstöddum að sonur hans hefði komið grátandi heim úr skólanum því bekkjarfélagar hans hefðu kallað föður hans þjóf.

„Ég reyni að mennta son minn og segja honum að faðir hans sé heiðarlegur einstaklingur en geti gert mistök eins og annað íþróttafólk. Þetta er mjög erfitt og ég mæli ekki með þessu fyrir einn eða neinn. Það sem við erum að ganga í gegnum er ekki lagi,“ sagði dómarinn.

Real Madríd brást við með að gagnrýna ummæli dómarans og þá hefur opinber sjónvarpsstöð félagsins sýnt hin ýmsu vafaatriði sem hafa átt sér stað í leikjum sem Bengoetxea dæmdi. Ofan á það hætti Real Madríd við blaðamannafund og æfingu í aðdraganda leiksins.

Leikur Real Madríd og Barcelona hefst klukkan 20.00 annað kvöld, laugardag. Er því haldið fram að Carlo Ancelotti gæti látið af störfum sem þjálfari Real ef illa fer.


Tengdar fréttir

Ancelotti segir engin ill­indi milli sín og for­setans

Carlo Ancelotti, þjálfari Spánar- og Evrópumeistara Real Madríd, segir engin illindi milli sín og forseta félagsins Florentino Pérez þrátt fyrir að Arsenal hafi slegið Real út í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×