Körfubolti

„Ég get ekki lýst þessu, ég á engin orð“

Smári Jökull Jónsson skrifar
David Okeke í baráttunni við Tindastólsmenn í kvöld, barátta sem hann oft á tíðum vann í leiknum.
David Okeke í baráttunni við Tindastólsmenn í kvöld, barátta sem hann oft á tíðum vann í leiknum. Vísir/Anton

David Okeke var mættur aftur til leiks með Álftnesingum í kvöld og var afar ánægður eftir magnaðan sigur á Tindastóli í undanúrslitum Bónus-deildarinnar. Staðan í einvíginu er jöfn eftir leik kvöldsins.

„Við börðumst og unnum okkar vinnu. Það er eiginlega ekkert meira að segja um þennan leik, það sáu þetta allir. Ég er orðlaus, “ sagði David Okeke i viðtali eftir leikinn í kvöld sem var frábær skemmtun og fullur af dramatík.

Okeke hefur verið að glíma við meiðsli að undanförnu og var tvísýnt hvort hann gæti spilað í kvöld. Það gerði hann heldur betur með glans, skoraði 18 stig, tók 10 fráköst og þar af voru 7 þeirra sóknarfráköst.

„Þeir sögðu mér bara að spila minn leik án einhverjar pressu, án þess að þurfa að gera eitthvað. Það er það sem ég gerði. Ég verð að þakka þjálfarateyminu fyrir að halda mér rólegum.“

Á þriðjudaginn er framundan leikur þrjú í einvíginu en þá mætast liðin í Síkinu á Sauðárkróki.

„Það verður ekki auðvelt, við þekkjum Tindastól og hversu hættulegir þeir eru. Við munum reyna að endurtaka það sem við gerðum í kvöld.“

Stemmningin í Kaldalónshöllinni í kvöld var algjörlega mögnuð, húsið troðfullt og stuðningsmenn beggja liða afar duglegir að hvetja sín lið.

„Stuðningsmennirnir eru þeir bestu í heimi, Álftanes númer eitt og svo Tindastóll. Þú heyrir þetta, frábært.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×