Upp­gjörið: Stjarnan - Haukar 99-75 | Stjarnan aftur á sigurbraut

Siggeir Ævarsson skrifar
Ægir Þór og félagar unnu sannfærandi sigur.
Ægir Þór og félagar unnu sannfærandi sigur. Vísir/Anton Brink

Toppurinn og botninn mættust í Bónus-deild karla mættust í Garðabænum í kvöld þegar Stjarnan tók á móti Haukum. Hlutskipti liðanna í deildinni ólíkt en Stjarnan tapaði þó í síðustu umferð gegn ÍR meðan Haukar lögðu Tindastól og því ómögulegt að bókfæra sigur hjá toppliðinu hér í kvöld fyrirfram.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur, fundu auðveldar körfur og sóknarleikur Hauka var stirður. Í stöðunni 16-7 tók Friðrik Ingi leikhlé og fljótlega kom 9-0 áhlaup hjá Haukum. Stjörnumenn leiddu þó með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 22-19.

Hilmar Smári endaði stigahæstur StjörnumannaVísir/Anton Brink

Haukarnir buðu upp á létta skotsýningu fyrir utan í öðrum leikhluta í bland við hörku góðan varnarleik og leiddu bróðurpartinn af honum. Stjörnumenn voru að láta dómgæsluna fara töluvert í taugarnar á sér en mest fór hún þó í taugarnar á Friðriki Inga, þjálfara Hauka, sem nældi sér í tæknivillu fyrir tuð.

Ægir fær óblíðar móttökurVísir/Anton Brink

De‘sean Parsons lokaði leikhlutanum með þristi og því var allt jafnt í hálfleik 48-48. Stjörnumenn byrjuðu seinni hálfleikinn svo af miklum krafti, ýttu muninn fljótlega upp í tíu stig og leiddu með þrettán fyrir lokaleikhlutann. Haukar virtust heillum horfnir og mögulega bara þreyttir en þeir skoruðu aðeins þrettán stig í leikhlutanum gegn 26 stigum heimamanna.

Stjörnumenn ýttu muninn fljótlega upp í 20 stig og þá virtist endanlega allur vindur úr Haukum, þrátt fyrir að sex mínútur rúmar væru til leiksloka. Algjört formsatriði fyrir heimamenn að klára leikinn á þessum tímapunkti sem þeir og gerðu. Lokatölur 99-75 þrátt fyrir hetjulega baráttu Hauka í fyrri hálfleik.

Steven Jr Verplancken átti frábæran fyrri hálfleik en skoraði aðeins tvö stig í þeim seinniVísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Undir lok fyrri hálfleiks, í stöðunni 44-43, fékk Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Hauka dæmda á sig tæknivillu. Ægir skoraði úr vítinu og svo setti Orri Gunnarsson ótrúlegan þrist þegar skotklukkan rann út. Það var eins og þarna snérist augnablikið aftur á sveif með Stjörnumönnum.

Orri var öflugur eins og svo gjarnanVísir/Anton Brink

Stjörnur og skúrkar

Ægir Þór Steinarsson bar sóknarleik Stjörnunnar á herðum sér í fyrri hálfleik en að lokum áttu fimm leikmenn þeirra eftir að enda í tveggjastafa tölu í stigaskori. Hilmar Smári stigahæstur með 21, Ægir með 19, sjö fráköst og níu stoðsendingar, Shaquille Rombley með 17 og níu fráköst og svo til öll stigin í seinni hálfleik, Orri Gunnarsson með 15 stig og átta fráköst og Jase Febres með 14.

Shaquille Rombley lét finna vel fyrir sér í kvöldVísir/Anton Brink

Hjá Haukum voru þrír leikmenn sem báru höfuð og herðar yfir aðra í sókninni. Steven Jr Verplancken og Everage Richardson skoruðu báðir 19 en Steven setti aðeins eina körfu í seinni hálfleik. Þá skoraði De'sean Parsons 14 og tók tíu fráköst.

Everage sækir á körfuna, Jase Febres til varnarVísir/Anton Brink
Hugi hefur átt betri kvöld, þrjú stig, 0/4 í vítum og fimm villurVísir/Anton Brink

Dómararnir

Jóhannes Páll Friðriksson, Birgir Örn Hjörvarsson og Ingi Björn Jónsson voru á flautunum í kvöld og hafa átt betri leiki. Virkuðu oft mjög óöruggir í sínum ákvörðunum og það fór í taugarnar á báðum liðum, þó sérstaklega Haukum eftir því sem leið á leikinn.

Dómararnir ráða ráðum sínumVísir/Anton Brink

Stemming og umgjörð

Stjörnumenn voru búnir að fíra upp í grillinu fyrir leik og létu slyddu og slabb ekki stoppa sig. Angan af grilluðum hamborgurum lagði yfir meira og minna allan Garðabæinn en dugði þó ekki til til þess að draga fólk á leikinn en stúkan í Umhyggjuhöllinni var afskaplega gisin í kvöld framan af leik en þeir sem mættu létu þó vel í sér heyra og Stjörnumenn sungu og trölluðu.

Baldur Þór: „Geggjaður varnarleikur í seinni og allir bara „on“ í öllu“

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari StjörnunnarVísir/Anton Brink

Stjörnumenn virkuðu mun beittari í seinni hálfleik í kvöld. Aðspurður sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari þeirra, að þeir hefðu í raun ekki breytt neinu í hálfleik en verið ákveðnir í að leggja meiri orku í varnarleikinn.

„Við breyttum svo sem engu. Varnarleikurinn var mikið betri í seinni hálfleik. Varnarleikurinn í fyrri hálfleik var ekki góður og við vorum allir ósáttir með hann. Ræddum það bara vel inni í klefa allir sem einn og ákváðum að setja meiri orku í þetta og vera ekki svona flatir. Vera nær þeim gildum sem við viljum vera varnarlega. Bara frábær varnarleikur í seinni, bara frábær algjörlega í seinni hálfleik, það náttúrulega gerir þetta.“

Haukar skoruðu aðeins 27 stig í seinni hálfleik og var Baldur sáttur með það.

„Það er bara frábært, bara geggjaður varnarleikur í seinni og allir bara „on“ í öllu og kepptu. Kepptu bara af krafti. Bara orka og það verður að vera.“

Fimm Stjörnumenn enduðu í tveggja stafa tölu í stigaskori í kvöld, var það kannski breiddin sem réð úrslitin eftir því sem leið á leikinn?

„Þeir voru náttúrulega með Steven, Everage og De‘sean mjög ráðríkir með boltann í höndunum. Mikilvægt kannski að hleypa ekki hinum, Birki og þessum strákum í sjálfstraust. Við vildum halda þeim út úr leiknum. Birkir að koma út úr leikjum þar sem hann er búinn að vera algjörlega frábær. Það var kannski fókus að reyna að halda þessum strákum út. En við vorum í brasi með Steven og félaga í fyrri hálfleik en náðum að loka mikið betur á það í seinni, ég er mjög ánægður með það.“

Það var augljós pirringur í Stjörnumönnum í fyrri hálfleik en Baldur náði að skrúfa fyrir það.

„Við vorum bara „soft“, við vorum að kvarta og væla, vorum bara ekki töff. Við viljum ekki spila þannig. Við þurftum aðeins að minna okkur á það allir sem einn sem lið. Bara frábært „bounce back“ hjá drengjunum í dag og frábær seinnihálfleikur.“

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Hauka, var greinilega á hraðferð eftir leik því hann var á bak og brott þegar blaðamaður freistaði þess að ná tali af honum eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira