Handbolti

Fimmti sigur Hauka kom í Eyjum

Sindri Sverrisson skrifar
Rut Jónsdóttir var markahæst hjá Haukum í dag með sjö mörk, nú þegar styttist í Evrópumótið í Austurríki.
Rut Jónsdóttir var markahæst hjá Haukum í dag með sjö mörk, nú þegar styttist í Evrópumótið í Austurríki. vísir/Viktor Freyr

Haukakonur komust upp að hlið Fram í 2.-3. sæti Olís-deildar kvenna í handbolta í dag með sex marka sigri gegn ÍBV í Vestmannaeyjum, 26-20, í lokaleik 7. umferðar deildarinnar.

Þetta var fimmti sigur Hauka sem eru núna með tíu stig eins og Fram, fjórum stigum á eftir meisturum Vals sem eru á toppnum.

ÍBV nýtti hins vegar ekki tækifærið til að jafna Hauka að stigum og er með sex stig líkt og Selfoss í 4.-5. sæti.

Rut Jónsdóttir skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og kom Haukum í 12-10. Munurinn var svo 1-2 mörk á upphafskafla seinni hálfleiks áður en Haukar breyttu stöðunni úr 15-16 í 15-19, og svo í 16-24, þegar heimakonur skoruðu aðeins tvö mörk á korters kafla.

Rut var markahæst hjá Haukum með sjö mörk og Inga Dís Jóhannsdóttir skoraði fimm. Birna Berg Haraldsdóttir var langmarkahæst hjá ÍBV með níu mörk og Sunna Jónsdóttir skoraði fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×