Handbolti

„Náðum að opna hlutina vel fyrir Ása“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ánægður með sína menn. 
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ánægður með sína menn.  Vísir / Anton Brink

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, sagði leikmenn sína hafa náð að framkvæma sóknarleik sinn, sem hafi verið góður til þessa í baráttunni við Fram í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta, enn betur þegar Hafnarfjarðarliðið rótburstaði gestina úr Úlfarsárdal í þriðja leik liðanna í Kaplakrika í kvöld. Sigursteinn varaði FH-inga þó við að fylgja ekki fordæmi Íkarosar í framhaldinu.

„Mér fannst við spila sóknarleikinn vel í síðasta leik og það var ekki vandamálið í þeim leik. Við náðum svo að fínpússa ákveðin atriði í þessum leik og það small allt saman. Við náðum til að mynda að opna hlutina betur fyrir Ása og hann og allir þeir leikmenn sem spiluðu að þessu sinni voru frábærir,“ sagið Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, kátur.

„Við vorum vel innstilltir frá fyrstu mínútu og náðum að spila hörkuvörn. Það sýndi kannski hversu einbeittir við vorum að það hafði ekki teljandi áhrif á okkur þegar Óli Gúst fær rauða spjaldið. Það stigu bara aðrir upp í hans stað og bættu við þeim auka prósentum sem þurftu í varnarleikinn eftir að hans naut ekki lengur við,“ sagði Sigursteinn enn fremur.

„Við hleyptum þeim aldrei inn í leikinn sem er jákvætt og við kláruðum þetta fagmannlega. Þetta er hins vegar bara einn sigur og við megum ekki fara fram úr okkur þrátt fyrir frábæra frammistöðu. Við þurfum tvo sigra í viðbót og við ætlum okkar að sækja þá,“ sagið hann aukinheldur.

„Það er alveg ljóst að Frammarar munu ekki eiga annan svona dag á sunnudaginn kemur og við þurfum að mæta af fullum krafti í þann leik til að jafna einvígið. Við þurfum á jafn góðum stuðningi að halda og við fengum í kvöld og ég hvet alla FH-inga til þess að mæta í Dalinn á sunnudaginn,“ sagði Sigursteinn um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×