Handbolti

Bjarki Már með þrjú mörk í stór­sigri Veszprém

Siggeir Ævarsson skrifar
Bjarki Már í leik með Veszprém
Bjarki Már í leik með Veszprém Twitter@telekomveszprem

Íslendingar voru í eldlínunni í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld en hlutskipti þeirra var þó nokkuð ólíkt.

Bjarki Már Elísson, leikmaður Veszprém, skoraði þrjú mörk þegar ungverska liðið, sem nýlega fagnaði heimsmeistaratitli félagsliða, lagði Dinamo Búkarest með tólf mörkum, 36-24. Haukur Þrastarson leikur með Dinamo og skoraði eitt mark í leiknum.

Þá stóð Viktor Gísli Hallgrímsson milli stanganna hjá pólsku meisturunum í Wisla Plock þegar liðið tapaði sínum fjórða leik í röð í Meistaradeildinni. Liðið tapaði með einu marki gegn Füchse Berlin, 25-24. Viktor varð átta skot í leiknum, eða 26 prósent af þeim skotum sem rötuðu á rammann.

Wisla er eins og áður sagði án sigurs í A-riðli Meistaradeildarinnar en staðan í riðlinum er mjög afgerandi tvískipt. Efstu fimm liðin eru öll með þrjá sigra í fjórum leikjum, en Sporting trónir þó á toppnum með sjö stig, þar sem liðið er með eitt jafntefli.

Á botninum eru svo þrjú lið, RK Eurofarm Pelister með eitt stig eftir jafntefli, og Wisla og Frederica Handboldklub, bæði án stiga en danska liðið er með neikvæða markatölu upp á 41 mark og vermir því botnsætið í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×