Körfubolti

„Stoltur af leik­mönnum og stuðnings­mönnum“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jóhann Ólafsson á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. 
Jóhann Ólafsson á hliðarlínunni í leiknum í kvöld.  Vísir/Anton Brink

Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður með bæði lærisveina sína og stuðningsmenn þegar liðið lagði Stjörnuna að velli í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar karla í körfubolta í Umhyggjuhöllinni í kvöld. 

„Við vorum góðir á báðum endum vallarins. Skutum vel og pössuðum miklu betur upp á hann en í síðasta leik. Við náðum að stýra tempóinu betur og hafa leikinn eins og okkar hentar vel lengur en í fyrstu tveimru leikjum seríunnar,“ sagði Jóhann sáttur. 

„Við erum með gott sóknarlið og við fengum orku og góðar frammistöður frá Arnóri og Braga sem skiptu miklu máli. Ólafur er svo að komast í sitt fyrra form og hann hefur spilað vel í úrslitakeppninni frá því að hann átti slæman dag í fyrsta leiknum á móti Val,“ sagði hann um bróður sinn. 

„Við náðum að standast áhlaup þeirra í fjórða leikhluta. Þeir vilja sprengja leikinn upp og keyra upp hraðann. Þeir reyna að ýta og berja frá sér og við bara settum kassann út og tókumst vel á við það,“ sagði Jóhann hreykinn. 

Jeremy Pergo fór meiddur af velli undir lok leiksins eftir að hafa meiðst aftan í læri. Jóhann vonaðist eðlilega til þess að meiðslin væru ekki alvarleg: „Ég talaði við sjúkraþjálfarann eftir leik og hann sagðist telj að þetta væri ekki alvarlegt. Við verðum bara að vona það besta og Pargo verði mættur á parketið í Smárnum á fimmtudaginn,“ sagði Jóhann. 

„Mig langar að hrósa bæði leikmönnum og stuðningsmönnum okkar fyrir að mæta vel stemmd til leiks í kvöld. Leikmenn sýndu hugrekki og góða frammistöðu og við fengum frábæran stuðning. Það er ekki sjálfgefið eftir tvo tapleiki og stuðningurinn ýtti okkur yfir línuna,“ sagði hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×