Fótbolti

Varafyrirliði Real Madrid sleit krossband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dani Carvajal var niðurbrotinn er hann var borinn af velli.
Dani Carvajal var niðurbrotinn er hann var borinn af velli. getty/Alvaro Medranda

Dani Carvajal, varafyrirliði Spánar- og Evrópumeistara Real Madrid, spilar ekki meira með á tímabilinu. Hann sleit krossband í hné í sigrinum á Villarreal.

Real Madrid vann 2-0 sigur á Villarreal á Santiago Bernabéu í spænsku úrvalsdeildinni í gær.

Í uppbótartíma meiddist Carvajal og var greinilega mjög þjáður. Strax var óttast að hann væri alvarlega meiddur og sá ótti var staðfestur eftir leik. Krossbandið er slitið, Carvajal þarf að fara í aðgerð og verður frá keppni út tímabilið.

„Alvarleg krossbandameiðsli eru staðfest. Ég þarf að fara í aðgerð og verð frá í nokkra mánuði. Hlakka nú þegar til að byrja endurhæfinguna og ég kem dýrvitlaust til baka,“ skrifaði Carvajal á Instagram gærkvöldi.

Lucas Vásquez mun væntanlega fylla skarð Carvajals en hann er eini eiginlegi hægri bakvörðurinn sem er eftir í leikmannahópi Real Madrid.

Madrídingar eru í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 21 stig, jafn mörg stig og topplið Börsunga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×