Fótbolti

Dæmdi ekki í Meistara­deildinni eftir að hafa hótað að drepa leik­mann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fabio Maresca fær ekki að dæma í Evrópu næstu vikurnar.
Fabio Maresca fær ekki að dæma í Evrópu næstu vikurnar. getty/Jonathan Moscrop

Ítalski dómarinn Fabio Maresca var ekki fjórði dómari í leik í Meistaradeild Evrópu í gær þar sem hann hótaði leikmanni lífláti.

Maresca var að dæma í úrvalsdeildinni í Kúveit á föstudaginn þegar hann á að hafa sagt við Khaled Al Murshed: „Þegar við sjáumst næst drep ég þig.“ Það fullyrðir Al Murshed allavega sjálfur.

Maresca var í kjölfarið tekinn af leik PSV Eindhoven og Sporting í Meistaradeildinni. Þar átti hann að vera fjórði dómari.

Honum hefur einnig verið meinað að dæma í ítölsku úrvalsdeildinni næsta mánuðinn. Vinnuveitendur Marescas í Kúveit kippa sér hins vegar ekkert upp við þetta og hann fær að dæma þar áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Maresca er einn fremsti dómari Ítalíu. Hann hefur dæmt í Evrópukeppnum frá 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×