Innlent

Stunginn í heima­húsi í Súða­vík

Árni Sæberg skrifar
Árásin var framin í Súðavík.
Árásin var framin í Súðavík. Vísir/Vilhelm

Ungur karlmaður var handtekinn í heimahúsi í Súðavík seint í gærkvöldi, grunaður um að hafa stungið mann. Maðurinn hlaut lífshættuleg stungusár og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Hann er nú kominn úr lífshættu.

Í færslu lögreglunnar á Facebook segir að tilkynning hafi borist klukkan 23:50 í gærkvöldi um átök í heimahúsi. Tilkynningu hafi fylgt að einn hafi verið stunginn með hnífi. Lögregla og sjúkralið hafi þegar farið á vettvang.

Karlmaður hafi verið fluttur með sjúkrabíl á heilbrigðisstofnun Vestfjarða, á Ísafirði og í kjölfarið með sjúkravél á sjúkrahús í Reykjavík. Hann hafi verið með lífshættuleg stungusár sem þurfti að meðhöndla frekar. 

Grunaði, ungur karlmaður, hafi verið handtekinn á staðnum og færður í fangahús á Ísafirði. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum muni í dag leggja fram kröfu fyrir Héraðsdómi Vestfjarða um að hann sæti gæsluvarðhaldi, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. 

Rannsókn málsins sé á frumstigi og ekki tímabært að gefa frekari upplýsingar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×