Fótbolti

Frá Manchester til Monza

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Omari Forson mun áfram spila í rauðu en nú á Ítalíu.
Omari Forson mun áfram spila í rauðu en nú á Ítalíu. Simon Stacpoole/Getty Images

Omari Forson neitaði nýjum samning hjá Manchester United og hefur nú samið við Monza sem endaði í 12. sæti Serie A á Ítalíu.

Hinn 19 ára gamli Forson er fæddur í Lundúnum á Englandi og hóf feril sinn hjá Tottenham Hotspur áður en hann samdi við Manchester United í janúar 2019. Hann fékk sín fyrstu tækifæri með aðalliði félagsins á síðustu leiktíð en ákvað að framlengja ekki samning sinn sem rennur út nú á næstu dögum.

Forson tók alls þátt í fjórum leikjum ensku úrvalsdeildarinnar og gaf meðal annars eina stoðsendingu, í ótrúlegum 4-3 útisigri á Úlfunum. Þá byrjaði hann gegn Fulham ásamt því að koma inn af bekknum gegn Manchester City og Arsenal.

Kom hann einnig við sögu í þremur leikjum ensku bikarkeppninnar en var þó ekki í hluti af leikmannahópnum þegar liðið lagði Manchester City 2-1 í úrslitum.

Það virðist sem Forson hafi viljað fleiri tækifæri og ákvað því að söðla um og semja ekki aftur við félagið. Hann mun nú færa sig til Ítalíu þar sem hann hefur samið við Monza sem endaði í 12. sæti á nýafstaðinni leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×