Fótbolti

Gló­dís Perla og stöllur að stinga af

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla og Bayern eru óstöðvandi heima fyrir.
Glódís Perla og Bayern eru óstöðvandi heima fyrir. Catherine Steenkeste/Getty Images

Bayern München vann öruggan 5-1 sigur á Duisburg í þýsku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í vörn Bayern á meðan Ingibjörg Sigurðardóttir var í miðri vörn Duisbug.

Heimakonur eru í bullandi fallbaráttu á meðan gestirnir í Bayern sigla hraðbyr að þýska meistaratitlinum. Það kom því verulega á óvart þegar Duisburg komst yfir á 42. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik.

Það tók gestina hins vegar aðeins fjórar mínútur að jafna metin í síðari hálfleik, Giulia Gwinn með markið. Þremur mínútum síðar var Bayern komið yfir þökk sé ensku landsliðskonunni Georgia Stanway.

Mia Eriksson bætti við þriðja marki Bayern á 63. mínútu, Jovana Damnjanovic því fjórða á 87. mínútu og Sydney Lohmann því fimmta á 89. mínútu, lokatölur 1-5. Ingibjörg nældi sér í gult spjald í síðari hálfleik.

Bayern trónir á toppi deildarinnar með 48 stig eftir 18 leiki, sjö stigum meira en Wolfsburg sem er í 2. sætinu. Duisburg er á botni deildarinnar með 4 stig og svo gott sem fallið.

Selma Sól Magnúsdóttir lék allan leikinn og nældi sér í gult spjald þegar Nurnberg tapaði 0-4 fyrir Essen á heimavelli. Selma Sól og liðsfélagar hennar eru í bullandi fallbaráttu en liðið er með 12 stig, tveimur á eftir Köln sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×