Fótbolti

Knatt­spyrnu­sam­band Evrópu svarar loksins kalli knatt­spyrnu­kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stórstjarnan Vivianne Miedema hjá Arsenal er ein af þeim sem misstu af HM eftir að hafa slitið krossband.
Stórstjarnan Vivianne Miedema hjá Arsenal er ein af þeim sem misstu af HM eftir að hafa slitið krossband. Getty/David Price

Krossbandaslit knattspyrnukvenna hafa verið mjög áberandi síðustu misseri og margir frábærir leikmenn misstu sem dæmi af heimsmeistaramótinu í ár vegna slíkra meiðsla.

Þessi holskefla hnémeiðsla hefur verið mikið áhyggjuefni í kvennafótboltanum en það hefur vantað miklu betri og markvissari viðbrögð við þessu vandamáli.

Slík hnémeiðsli eru miklu algengari hjá konum en körlum og það er öllum ljóst sem vilja sjá það að eitthvað þarf því að gera.

Heimsklassa leikmenn eins og þær Leah Williamson, Beth Mead, Catarina Macario og Vivianne Miedema misstu allar af HM eftir slit. Pressan á aðgerðir var alltaf meiri og meiri.

Nú hefur Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, loksins stigið skref í rétta átt til að finna lausnir og fyrirbyggjandi aðgerðir.

UEFA hefur nefnilega svarað ákalli knattspyrnukvenna og sett á fót starfshóp um krossbandsslit knattspyrnukvenna.

Starfshópurinn er þegar tekinn til starfa og hefur nú unnið að því að setja saman spurningalista sem allar knattspyrnukonur frá tækifæri til að svara og hjálpa þar með hópnum að öðlast dýpri skilningi á vandamálinu og kringumstæðunum. Ætlunin er síðan að vinna áfram með niðurstöðurnar og vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum.

„Að taka á þessari miklu tíðni krossbandsslita í kvennafótboltanum er algjört lykilatriði fyrir velferð leikmanna og fyrir framþróun íþróttarinnar,“ sagði Zoran Bahtijarevic, yfirlæknir UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×