Fótbolti

Sjóð­heitur Hilmir skoraði í fyrsta leik fyrir Viking

Sindri Sverrisson skrifar
Hilmir Rafn Mikaelsson er strax farinn að láta til sín taka hjá Viking.
Hilmir Rafn Mikaelsson er strax farinn að láta til sín taka hjá Viking. Viking FK

Þrátt fyrir að Viking hefði verið búið að missa mann af velli með rautt spjald náði Hilmir Rafn Mikaelsson að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið í dag, strax í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Markið má sjá á vef TV 2 með því að smella hér en Hilmir skoraði það af stuttu færi eftir undirbúning Edvin Austbö.

Það dugði þó skammt því Viking tapaði leiknum, gegn nýliðum Vålerenga, 3-1. Hilmir skoraði jöfnunarmarkið á 63. mínútu, skömmu eftir að Martin Roseth hafði fengið sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Fyrirliðinn Henrik Björdal kom Vålerenga hins vegar yfir aftur strax á 66. mínútu og skoraði svo sitt annað mark og lokamark leiksins á 79. mínútu.

Hilmir, sem er 21 árs, þarf því að bíða eftir fyrsta sigrinum með Viking, eftir að hafa áður spilað með Kristiansund og Tromsö í norsku deildinni, sem lánsmaður frá Venezia á Ítalíu. Hann var keyptur til Viking í vetur.

Með marki sínu í dag hefur Hilmir skorað í þremur leikjum á tíu dögum því í landsleikjahléinu skoraði hann í báðum leikjum U21-landsliðsins á Spáni, í 3-0 sigri gegn Ungverjum og 6-1 sigri gegn Skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×