Fótbolti

„Þurfum að halda í það sem við erum góðir í“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson í leik kvöldsins.
Guðlaugur Victor Pálsson í leik kvöldsins. David S. Bustamante/Getty Images

„Mér fannst þetta mjög fínt, vörðumst vel og vorum þéttir,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, varnarmaður Íslands, um 2-0 tap liðsins gegn Portúgal ytra í lokaleik undankeppni EM 2024. Þrátt fyrir tap sagði Guðlaugur Victor að það væru nokkrir ljósir punktar í frammistöðu kvöldsins.

„Lögðum leikinn svona upp, að vera í þessari blokk eins og í fyrri leiknum. Það tókst vel, svipað og við gerðum heima. Við töpuðum vissulega en þetta var betra en var fyrir nokkrum dögum.“

„Þetta er það sem hentar okkur, vera í 4-4-2 leikkerfinu og með þessi gildi. Vera þéttir og vinna saman, þetta er okkar leið þegar kemur að varnarleiknum. Við fáum alltaf einhver hálffæri – ekki mikið af færum í dag, eitt í lokin. En ef við fullkomnum þetta og höldum hreinu er alltaf stig í boði.“

„Þurfum að halda í það sem við erum góðir í, börðumst sem lið og vörðumst ógeðslega vel. Þetta er íslenska leiðin.“

Klippa: Guðlaugur Victor eftir leikinn gegn Portúgal

„Erum búnir að spila þrjá hræðilega útileiki í þessum riðli. Fyrir utan Liechtenstein þá var þetta skásti útileikurinn okkar. Fórum í það sem við erum góðir í og kunnum, þetta er það sem við þurfum að halda í. Þurfum að gera meira fram á við en vorum að spila við eitt besta lið í heimi. Þurfum að halda í þetta og hitt mun koma,“ sagði Guðlaugur Victor að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×