Fótbolti

„Mót­lætið styrkir mann“

Aron Guðmundsson skrifar
Andrea Rán í leik með íslenska landsliðinu gegn Sviss á dögunum
Andrea Rán í leik með íslenska landsliðinu gegn Sviss á dögunum Vísir/Getty

Andrea Rán Snæ­feld Hauks­dóttir upp­lifði mikið stolt og gleði með að fá aftur tækifæri til að spila fyrir ís­lenska lands­liðið í síðasta verk­efni liðsins. Hún var valin aftur núna fyrir komandi leiki liðsins sem hún segir liðið spila fyrir Glódísi Perlu sem er fjar­verandi vegna meiðsla.

Andrea, sem spilar með Tamba Bay Sun í USL ofur­deildinni í Bandaríkjunum, sneri aftur í ís­lenska lands­liðið eftir um fjögurra ára fjar­veru í síðasta lands­liðs­verk­efni og spilaði gegn Sviss og Frakk­landi í fyrstu leikjum Ís­lands í Þjóða­deildinni þetta árið.

Klippa: Andrea Rán fyrir leiki í Þjóðadeild

„Það var bara mikil gleði og stolt sem fylgdi því að vera komin aftur. Það var ein­hvern veginn erfitt að búast við ein­hverjum ákveðnum hlutum en maður er alltaf bara til­búin ef kallið skildi koma. Mótlætið styrkir mann,“ segir Andrea en hún átti í góðum sam­skiptum við Þor­stein lands­liðsþjálfara í að­draganda verk­efnisins.

„Hann var í sam­bandi við mig þegar leið að þessum verk­efnum og hefur verið að fylgjast með mér, það er gott að vita af því.“

Og til­finningin sem fylgdi því að spila aftur fyrir land og þjóð var í betri kantinum.

„Ég var bara svo stolt yfir því að klæðast lands­liðs­treyjunni aftur og spila fyrir lands­liðið. Stolt er eigin­lega bara orðið sem lýsir því.“

Þetta er annað lands­liðs­verk­efnið í röð sem Andrea Rán tekur þátt í, hún stefnir á sæti í EM hópi Ís­lands.

„Við gerum það allar. Það er mikil sam­keppni, hún er af hinu góða.“

Mark­miðið sé að sækja sigur gegn Noregi á föstu­daginn.

„Við förum í alla leiki til að taka þrjú stig, við tökum þetta dag fyrir dag, leik fyrir leik og stefnum á þrjú stig.“

Ís­lenska lands­liðið verður án fyrir­liða síns og besta leik­manns í komandi leikjum, Glódís Perla Viggós­dóttir er frá vegna meiðsla og hennar er sárt saknað.

„Að sjálfsögðu söknum við hennar mikið. Hún er sterkur leið­togi liðsins og hefur alltaf verið hérna en það kemur bara maður í manns stað og við ætlum að spila fyrir hana, gera hana stolta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×