Enski boltinn

Tonali tryggði Newcastle dýr­mætan sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandro Tonali fagnar sigurmarki sínu fyrir Newcastle í kvöld.
Sandro Tonali fagnar sigurmarki sínu fyrir Newcastle í kvöld. Getty/George Wood/

Deildabikarmeistarar Newcastle byrja vel eftir ævintýrið á Wembley því liðið vann í kvöld mikilvægan sigur á Brentford í baráttunni um Meistaradeildarsætin í ensku úrvalsdeildinni. Aston Villa vann líka risasigur á útivelli á móti Brighton & Hove Albion.

Ítalinn Sandro Tonali tryggði Newcastle 2-1 sigur á Brentford með marki sextán mínútum fyrir leikslok. Alexander Isak kom Newcastle í 1-0 í uppbótatíma fyrri hálfleiks en Bryan Mbeumo jafnaði úr vítaspyrnu á 66. mínútu. 

Sigurmarkið hans Tonali var ótrúlegt mark utan af kanti en hann skaut boltanum í markið rétt við hornfánann.

Marcus Rashford og Marco Asensio halda áfram að gera frábæra hluti með Aston Villa en þeir skoruðu báðir fyrir Villa í 3-0 útisigri á Brighton. Morgan Rogers lagði upp bæði mörkin. Donyell Malen skoraði síðan þriðja markið í uppbótatíma eftir sendingu frá Asensio.

Eftir þessa góðu sigra þá er Newcastle í fimmta sæti en Aston Villa í því sjöunda.

Bournemouth tapaði aftur á móti óvænt 1-2 á heimavelli á móti Ipswich sem situr í fallsæti. Nathan Broadhead og Liam Delap komu Ipswich í 2-0 en Evanilson minnkaði muninn.

Southampton var nálægt því að vinna líka en gerði á endanum 1-1 jafntefli á heimavelli við Crystal Palace. Paul Onuachu kom Southampton í 1-0 á 20. mínútu en Matheus Franca jafnaði metin í uppbótatíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×