Enski boltinn

Vilja úr­slita­leik snemma vegna Euro­vision

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Manchester City og Húsavíkurvinirnir í Remember Monday koma ekki til með að spila á sama tíma 17. maí.
Leikmenn Manchester City og Húsavíkurvinirnir í Remember Monday koma ekki til með að spila á sama tíma 17. maí. Samsett/Getty

Breski ríkismiðillinn BBC þrýstir nú á það að úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar þann 17. maí fari fram klukkan þrjú að staðartíma, til að öruggt sé að bikarmeistarar verði krýndir nokkru áður en Eurovision hefst í Basel um kvöldið.

Þetta fjallar enska götublaðið Mirror um í dag og segir að allt kapp verði lagt á að tryggja að ekki séu neinar líkur á að framlenging og vítaspyrnukeppni verði enn í gangi þegar útsending frá Eurovision á að hefjast.

Manchester City og Crystal Palace mætast í úrslitaleiknum 17. maí. Mirror segir að úrslitaleikurinn hafi áður hafist klukkan 17:15 en að í fyrra hafi úrslitaleikurinn á milli City og Manchester United hafist klukkan þrjú og það sé aftur markmið BBC í ár.

Bretar eiga fast sæti á lokakvöldi Eurovision og því ljóst að þeirra framlag í ár, lagið What The Hell Just Happened með Remember Monday, verður með 17. maí í lýsingu Graham Norton frá úrslitakvöldinu. Samkvæmt frétt Mirror náði Eurovision til átta milljóna áhorfenda í fyrra og því alveg ljóst að BBC vill ekki að stærsti leikur tímabilsins skarist við keppnina.

BBC og ITV deila réttinum að útsendingu bikarkeppninnar í Bretlandi og náði úrslitaleikurinn í fyrra til 9,1 milljónar áhorfenda í Bretlandi.

Ef að leikurinn hefst klukkan þrjú er ljóst að jafnvel þó að úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni ætti útsendingunni að vera lokið klukkan hálfsjö, í tæka tíð fyrir útsendingu frá Eurovision.

Stöð 2 Sport og Viaplay deila útsendingarréttinum að ensku bikarkeppninni á Íslandi.


Tengdar fréttir

Syngja Húsavík á Húsavík með stúlknakórnum

Tónlistarmyndbandið fyrir „Húsavík (My Hometown)“ í flutningi Remember Monday, sem keppir fyrir hönd Bretlands í Eurovision 2025, er komið út. Myndbandið er tekið upp á Húsavík og syngur stúlknakór Húsavíkur með þríeykinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×