Enski boltinn

Tíma­bilið gæti verið búið hjá Marcus Rashford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford er mögulega búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Aston Villa.
Marcus Rashford er mögulega búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Aston Villa. Getty/Carl Recine

Aston Villa steinlá í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á Wembley í gær en liðið mætti þar til leiks án Marcus Rashford.

Crystal Palace vann leikinn 3-0 og mætir annað hvort Manchester City og Nottingham Forest í úrslitaleiknum.

Það vakti athygli að Rashford var ekki í byrjunarliði Aston Villa eftir að hafa farið mikinn síðan hann kom á láni frá Manchester United. Unai Emery hafði skýringu á því eftir leik.

Rashford missti af leiknum eftir að hafa meiðst á æfingu í vikunni fyrir leikinn. Svo gæti farið að hann missi af restinni af tímabilinu sem væru slæmar fréttir fyrir Villa menn í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni.

„Hann er meiddur,“ sagði Unai Emery.

„Hann meiddist á æfingu í vikunni og við sendum hann í myndatöku á föstudaginn. Þetta er tognun aftan í læri. Við munum skoða stöðuna á honum fyrir hvern leik en hann er meiddur og það eru líklega einhverjar vikur í það að hann verði klár,“ sagði Emery.

Rashford hefur spilað vel með Aston Villa eftir að hann kom þangað úr frystikistunni á Old Trafford. Í sautján leikjum sínum með Aston Villa hefur hann boðið upp á fjögur mörk og sex stoðsendingar.

Rashford var þó ekki meiddari en það en að hann mætti á boxbardaga á Tottenham leikvanginum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×